Val á borðplötu er jafn mikilvægt og val á öðrum húsgögnum á heimilinu. Borðplata er ekki bara gagnleg heldur hefur hún einnig gríðarlega mikil áhrif á heildarútlit og stemningu rýmisins. Borðplatan er staðurinn fyrir máltíðir, lestur, heimavinnu, fjölskylduhittinga o.fl. Hún er staðurinn þar sem vinir og vandamenn koma saman til að eiga notalegar samverustundir.
Hvaða borðplötu ættirðu semsagt að velja? Borðplötur fást í mismunandi lögunum, stærðum og efnum og því getur reynst erfitt að átta sig á því hvar er gott að byrja. Við höfum til allrar lukku tekið saman leiðbeiningar sem aðstoða þig við að finna réttu borðpötuna fyrir borðfæturna þína.
Fyrsta hugsunin sem kemur upp í huga margra er hvaða efni sé tilvalið fyrir borðplötuna. Efnisvalið fer að miklu leyti eftir því hvernig borðið á að vera notað og hvernig þú vilt að það líti út. Hér að neðan skoðum við mismunandi efni fyrir borðplötur.
Viðarborðplötur eru vinsælasti valkosturinn. Viður er klassískur og tímalaus og er besti kosturinn fyrir þá sem vilja efni sem eykur hlýju og náttúrulega fegurð í eldhúsinu, stofunni eða borðstofunni. Hann er einnig endingargóður og harðger. Ef vel er farið með viðinn þá getur hann enst í mörg ár. Þú getur valið á milli mismunandi viðartegunda allt eftir ráðstöfunarfé og smekk. Tekkviður er vinsælasta valið bæði fyrir inni- og útihúsgögn þar sem hann er slitsterkur og veðurþolinn. Hann er með háu olíuinnihaldi sem verndar viðinn gegn termítum og vatni. Akasíuviður er einnig frábært val. Hann er með fallegu náttúrulegu æðamynstri og hann er bakteríudrepandi og vatnsþolinn.
Borðplötur úr gleri eru ekki mjög algengar en þær eru þekktar fyrir fegurð og lúxus. Þar sem glerið er gegnsætt þá fær það rýmið til að virka stærra en það er. Glerborðplötur eru einnig auðveldar í þrifum. Það eina sem þú þarft að gera er að renna klút yfir borðplötuna og það besta er að ef það skvettist á borðplötuna þá skilur það ekki eftir sig merki. Gler þarfnast þó reglulegrar hreinsunar þar sem jafnvel minnstu ummerki (eins og fingraför) eru greinanleg. Þó að glerborðplötur séu endingargóðar þá geta óhöpp auðvitað gerst og því eru þær mögulega ekki besti kosturinn ef þú átt börn eða gæludýr.
Marmari er sterkur og rammgerður efniviður sem finnst víða um heiminn. Mismunandi svæði framleiða mismunandi tegundir af efninu. Marmari er þó náttúrulega alsettur smáholum og því er mikilvægt að vel sé hugsað um hann. Regluleg þrif eru nauðsynleg til að fjarlægja ryk og óhreinindi sem geta skemmt efnið. Mikilvægt er að þrífa samstundis drykki eins og appelsínusafa eða kaffi sem geta valdið blettum sem ekki nást úr efninu.
Spónaplata (MDF) er einn mest notaði samsetti viðurinn í húsgagnasmíði. Hún er besti kosturinn fyrir þá sem hafa ekki efni á gegnheilum viði. Borðplötur úr MDF þola einnig raka betur. Efnið stækkar og minnkar sem heild en heldur jafnframt lögun og heilleika borðplötunnar í góðu standi. MDF er þar að auki ekki með sérstakri áferð eða æðamynstri og því er auðveldara að mála það eða húða það.
Það fyrsta sem þér dettur eflaust í hug þegar þú hugsar um form borðplatna er rétthyrnt, ferhyrnt eða kringlótt húsgagn. Aðrar laganir fást þó fyrir einstaklinga sem vilja óvenjulegra form.
Rétthyrndar borðplötur eru að öllum líkindum vinsælasta lögunin þar sem hún er einföld og þráðbein og passar þannig flestum rýmum. Hagnýt lögunin og löng og mjó hönnunin gerir þessa tegund borða að góðum kosti fyrir matarboð í stærri kantinum. Ef rýmið er í minna lagi þá má setja rétthyrnt borð upp við vegg til að nýta gólfplássið betur. Þessi lögun borða er afar fjölhæf.
Ferkantaðar borðplötur eru besti kosturinn fyrir litlar stofur þar sem þær samsvara sér vel í rýminu og setja gott jafnvægi á það. Þótt þær séu ekki eins stórar og rétthyrndar borðplötur þá bjóða þær engu að síður upp á þægilegt pláss fyrir þá sem sitja við borðið.
Kringlóttar borðplötur eru einnig frábærar fyrir lítil herbergi. Þær eru ekki með skörpum hornum og því er auðvelt að færa þær til. Sætaframboð er heldur ekki fast, sem þýðir að hægt er að troða hinum og þessum inn á milli. Þú getur þó ekki sett kringlótt borð í horn eða upp við vegg.
Sporöskjulaga borðplötur bjóða upp á sama línulaga form og rétthyrnd borð og sömu nánd og kringlótt borð, sem þýðir að þú færð það besta úr báðum heimum. Flest sporöskjulaga borð eru í sömu stærð og rétthyrnd borð og þau rúma því nokkuð marga einstaklinga. Þau eru þar að auki ekki með fyrirframákveðnum fjölda sæta og því er auðvelt að bæta stól við hér og þar ef óvænta gesti ber að garði.
Stærð borðplötunnar ætti að fara eftir því hversu oft þú munt nota borðið. Mælt er með því að borðið sé í um 1 metra fjarlægð frá næsta vegg eða húsgagni. Þú færð þannig nægt rými til að setjast við borðið eða fara frá því án bjásturs. Einnig er gott að hafa um 60-76 cm bil á milli stóla til að tryggja þægilega setu.
Lögun eldhús- eða borðstofuborðsins ákvarðar einnig þann fjölda stóla sem passar í kringum borðið. Rétthyrnd borð rúma fleiri einstaklinga en önnur borð, en kringlótt borð eru besti kosturinn fyrir fólk með takmarkað pláss.
Ertu í leit að réttu borðplötunni? Skoðaðu vöruúrvalið okkar og finndu rétta kostinn fyrir þig.