Kaupleiðbeiningar: Góð ráð við val á legubekk

Í fljótu bragði er legubekkur fínasta viðbót við stofuna, svefnherbergið eða skrifstofuna. En þegar grafið er dýpra þá er legubekkurinn svo miklu meira en bara sæti. Legubekkir komu fyrst fram á sjónarsviðið í Frakklandi á 17. öld og þeir hafa alla tíð síðan verið tákn um fágun og glæsileika.

Á þeim tíma voru þeir einnig kallaðir yfirliðssófar en með tímanum þróaðist notagildið og þeir urðu m.a. vinsælir sem garðsófar. Vegferð legubekkja hefur farið frá því að vera lúxusvara á frönskum yfirstéttarheimilum yfir í að vera nánast staðalbúnaður á sálfræðistofum og í dag eru þeir sjálfsagður hluti af heimilisinnréttingunum. En hvernig er hægt að finna hinn rétta legubekk? Í þessum kaupvísi ætlum við að fara yfir þau atriði sem skipta máli við val á legubekk.

 

Mismunandi gerðir legubekkja - finndu þann sem hentar þér

Legubekkir eiga sér langa sögu og hafa þróast og breyst með tímanum. En af hverju njóta legubekkir svona mikilla vinsælda? Svarið er einfalt: Þeir bjóða upp á sömu þægindi og sófar en eru fyrirferðarminni og nýtast því ekki bara í stofunni. Legubekkir fást í fjölmörgum útfærslum og því er hægt að finna legubekk fyrir hvaða heimili sem er, sama hvort stíllinn er klassískur eða nútímalegur. Vinsælustu tegundirnar eru:

Legubekkur án arma - Þessi týpa er með bakstoð öðru megin. Þetta er einföld hönnun sem hægt er að koma fyrir á margvíslegan hátt á heimilinu. Bekkurinn getur staðið nánast hvar sem er, en við mælum með því að hann sé hafður upp við vegg til að spara gólfpláss. Sumir eru með stillanlegu baki, sem kemur sér vel við lestur eða sjónvarpsgláp.

Legubekkur með einni armhvílu, einnig kallaður sá viktoríanski, er algjörlega sígildur og ber af öðrum húsgögnum. Armhvílan liggur frá bakinu og er um helmingur af lengd bekkjarins. Komdu honum fyrir upp við vegg til að spara pláss og auðga innréttingarnar.

Legubekkur með tveimur armhvílum er sérstaklega ætlaður til þess að liggja á. Þessi týpa fer afar vel í stofunni. Afslappandi sætisstellingin er afar þægileg við sjónvarpið og svo er líka frábært að fá sér kríu á þessum!

Legubekkir með baki á báðum endum kallast Recamier sófar. Þessir legubekkir eru kannski ekki þeir þægilegustu við legu, en þú getur treyst því að þeir steli athyglinni hvar sem þeir standa.

Hvar á að setja legubekkinn og hvernig er hægt að stílfæra hann?

Nú þegar við höfum farið yfir þær tegundir af legubekkjum sem hægt er að finna, þá er næsta skref að fara yfir það hvernig má stílfæra bekkinn svo hann falli að þínu heimili. Það er reyndar ekki erfitt að stílfæra legubekk og laga hann að þeim innréttingum sem fyrir eru.

Bekkirnir hafa einstakt útlit og yfirbragð sem sóma sér vel í flestum herbergjum hússins. Til að finna út í hvaða átt er best er að staðsetja legubekkinn skaltu skoða hvernig heimilisfólk gengur um rýmið. Tilvalið er að koma legubekk fyrir á rólegum stað og nýta hann til að útbúa notalegan krók. Legubekkir geta vel staðið bæði við vegg eða undir glugga.

Ef þú velur legubekk án armhvílu þá ættirðu auðveldlega að sjá út hvar bekkurinn kemst fyrir. Fyrir jafnvægi í stofuinnréttingum er hægt að koma honum fyrir sem mótvægi við einingasófa. Miðaðu við hvoru megin horn sófans er og komdu bekknum fyrir á móti því. Láttu bekkinn snúa að innganginum í rýmið eða einhverju sem auga festir á (eins og t.d. sjónvarpi, arni eða öðru) til að skapa afslappandi andrúmsloft.

Taktu allar innréttingar með í útreikningana á því hvar legubekkurinn á að standa. Legubekkur með armhvílu sem stendur ekki við vegg getur lokað rýmið aðeins af. Því getur komið betur út að hafa legubekkinn upp við vegg eða á fáfarnari stað. Vertu viss um að það sé hægt að ganga um rýmið þegar bekkurinn er kominn á sinn stað og settu upp gólflampa eða lítið borð til að ýta undir notalegheitin.

 

Hver er minn stíll? - Réttur litur og efniviður

Það eru smáatriðin sem gera legubekkinn að því sem hann er; efniviður, litur og stíll. Þú hefur úr fjölbreyttu úrvali að velja og ættir því að geta fundið eitthvað sem hentar þínu heimili.

Fyrir minimalísk rými, eða þar sem iðnaðarstíll er ríkjandi, er legubekkur í hlutlausum litatón rétta valið. Í þeim stíl er tilvalið að velja einfaldan legubekk án flúrs og skreytinga, eða bekk með málmgrind. Þegar kemur að áklæði þá setja bæði leður og rúskinn skemmtilegan svip á rýmið, alls óháð lit.

Fyrir heimili í rómantískum frönskum stíl er allt að því nauðsynlegt að hafa legubekk á heimilinu. Þar njóta íburðarmeiri bekkir með flúruðum fótum og örmum sín betur, sérstaklega í ljósari litatónum. Veldu flauelsáklæði - það er fátt sem jafnast á við það. Legubekkir í sterkum litum henta vel til að lífga upp á rýmið og gefa því glæsilegt yfirbragð.

Fyrir heimili í klassískari stíl mælum við með legubekkjum í Chesterfield-stíl. Þeir eru afar glæsilegir á að líta og fást í ýmsum litum. Legubekkir með tauáklæði koma afar vel út með flúruðum smáatriðum á fótum.

Það fer þó mikið eftir notkun og tilgangi bekkjarins hvaða áklæði hentar best fyrir rýmið þar sem útlitið og endingin getur verið afar mismunandi. Silki, flauel, rúskinn og leður eru efniviðir sem hafa fallega áferð en þurfa góða umhirðu til að útlitið endist. Áklæði úr míkrófíberefni eða pólýester eru hins vegar bæði þægileg og þurfa ekki mikla umhirðu eða viðhald. Ef það eru gæludýr eða börn á heimilinu, eða ef bekkurinn verður notaður daglega, þá eru þetta bestu valkostirnir. Til að hjálpa þér með valið höfum við tekið hér saman nokkra af uppáhaldsbekkjunum okkar.