Hvernig þú velur réttu handklæðin fyrir heimilið
Val á réttu handklæðunum er ekki eins auðvelt og maður skyldi halda. Þú gætir freistast til að velja ódýr handklæði úr næstu verslun, en góð handklæði með réttu úfnu áferðinni, rakadrægninni og endingunni krefjast mikillar leitar sem getur tekið bæði tíma og fyrirhöfn. Svo eru mjög úfin handklæði oft ekki bestu handklæðin.
Gott handklæði er fljótt að þorna og með áferð sem er þægileg á bera húð. Svo lítur það einnig vel út og endist í mörg ár. En fólk er auðvitað með mismunandi smekk hvað varðar handklæði, eins og með allt annað. Það er því alltaf best að prófa að snerta handklæðið til að finna áferðina. Þó finnst ekki öllum þægilegt að labba um í búð og snerta hvert handklæðið eftir annað. Ef þú ætlar því að kaupa handklæðin á netinu, þá eru nokkur góð ráð sem þú getur fylgt til að finna rétta handklæðið. Þessar einföldu leiðbeiningar fara yfir helstu atriðin sem þú þarft að hafa í huga í leitinni að nýjum handklæðum.
Hvaða efni ættirðu að velja fyrir handklæðin þín?
Mikilvægasta atriðið við val á handklæði er hversu vel handklæðið dregur í sig vökva. Því skiptir í rauninni miklu máli að velja rétta efnið fyrir handklæðið. Valið á efninu ákvarðar mýkt og endingu handklæðisins. Hér eru nokkur af algengustu efnunum fyrir handklæði.
Bómull
Bómull er án efa vinsælasta efnið í handklæði þar sem hún er bæði mjúk og afar rakadræg. Hún getur dregið í sig allt að 25 sinnum þyngd sína í vökva. Hún andar einnig vel - trefjarnar hleypa lofti auðveldlega í gegn. Það sem skiptir þó meginmáli er að hún er mjúk viðkomu. Handklæði úr bómull fást einnig í allskyns litum og hönnunum. Þar sem efnið dregur vel í sig vökva þá er einnig auðvelt að lita það í öllum regnbogans litum, sem gerir efnið afar fjölhæft. Þó eru ekki öll bómullarhandklæði eins. Egypsk og tyrknesk bómull er mjúkasta og rakadrægasta tegundin af bómull.
Hör
Hör er annað frábært efni fyrir handklæði. Það skiptir ekki máli hvort handklæðin eigi að fara á fjölskyldubaðherbergið eða gestabaðherbergið - hör er einn besti efniviður sem finnst fyrir handklæði. Hann er náttúrulegur, mjúkur og rakadrægur. Handklæði úr hör líta kannski þynnri út en bómullarhandklæði, en þau eru reyndar bæði sterkari og rakadrægari en handklæði úr bómull. Þetta útskýrir af hverju hör er svona oft notað í handklæði.
Míkrófíber
Míkrófíberhandklæði eru vinsæl í sport- og útilegugeiranum þar sem þau þorna hratt, eru bæði rakadræg og örverueyðandi og taka lítið pláss brotin saman. Handklæði úr gerviefnum eru fyrirferðarminni en bómullarhandklæði, en þau draga alveg ótrúlegt magn af vökva í sig þrátt fyrir fínofna samsetninguna. Þar sem þau þorna hraðar eru minni líkur á að það komi mygla í handklæðin. Míkrófíber dregur þar að auki mjög vel í sig óhreinindi og annað, sem gerir efnið tilvalið til að þurrka af á heimilinu eða í bílnum. Míkrófíberhandklæði eru einnig hagsýnn kostur þar sem þau endast í mörg ár. Þau eru þó ekki alveg jafn rakadræg og bómullarhandklæði.
Önnur gerviefni
Þú finnur einnig handklæði úr öðrum gerviefnum fyrir utan míkrófíber. Þetta gæti verið pólýester, nælon og míkrósatín. Þessum efnum er oft blandað við bómull til að gefa þeim úfna og mjúka áferð. Annar kostur við þessa tegund handklæða er að þau eru blettaþolnari en önnur handklæði, sem gerir þau tilvalin fyrir reglulega notkun. Þau eru einnig slitsterk og endingargóð, svo ekki sé minnst á ódýrari en handklæði úr náttúrulegum efnum. Þau draga þó minni vökva í sig heldur en handklæði úr 100% bómull.
Hvaða tegund af handklæðum geturðu valið úr?
Það eru allskyns tegundir af handklæðum í boði, allt eftir efni, þykkt, stærð og notkun. Eftirfarandi eru algengustu tegundirnar af handklæðum sem þú þarft á heimilið.
Baðhandklæði
Þetta er líklegast algengasta tegundin af handklæðum. Handklæðin fást í mjúkum, slitsterkum og rakadrægum efnum á borð við bómull, pólýester og hör. Þau eru yfirleitt nógu stór til að hægt sé að vefja þeim utan um allan líkamann. Þau hanga yfirleitt á slá inni á baðherberginu eða fyrir utan það. Baðhandklæði fást í mismunandi stærðum, allt eftir smekk og þörfum.
Þurrkhandklæði
Þessi handklæði eru yfirleitt við vaskinn og þau eru notuð til að þurrka hendurnar eftir handþvott. Fólk spáir oft ekki mikið í þau þangað til það áttar sig á því að handklæðið vantar - þá er ráfað um hálft heimilið með blautar hendur í leit að handklæði. Þurrkhandklæði eru í minna lagi og þau hanga oft á hring eða stöng í baðherberginu, eldhúsinu eða yfir vaski. Flest þurrkhandklæði eru gerð úr bómull, hör eða bómullar- og pólýesterblöndu.
Þvottapokar
Það er ekki mælt með að þú notir sama handklæði til að þurrka andlitið og þú notar fyrir hárið. Þú gærir lent í því að færa snyrtivörur, olíu eða bakteríur yfir á andlitið, sem gæti gefið þér graftarbólur. Þvottapokar eða andlitshandklæði eru rakadræg, mjúk og létt á húðina og þau ættu auk þess bæði að hreinsa andlitið og fríska upp á það. Þú getur einnig notað þvottapokann til að hreinsa farða af húðinni áður en þú ferð í bólið. Þvottapokar eru yfirleitt í minni kantinum.
Viskustykki
Viskustykkið er án efa einn af þeim hlutum á heimilinu sem er notaður hvað mest. Við notum það til að þurrka hendurnar, þurrka af eldhúsborðinu, þurrka diska, taka kökur úr ofninum - svo fátt eitt sé nefnt. Viskustykkið er eitt slitsterkasta handklæði sem fyrirfinnst. Sum viskustykki eru fjölnota og þú getur því notað þau á ýmsa vegu. Sniðugt er að velja viskustykki sem henta þemanu á heimilinu.
Strandhandklæði
Strandhandklæði eru í svipaðri stærð og baðhandklæði en þau eru þó oftast gerð úr öðrum efnum. Þessi tegund handklæða er úr flatofnum þráðum, sem gerir þau þynnri en önnur handklæði. Þau taka minna pláss í strandtöskunni þinni og eru þar að auki fljót að þorna. Svo eru þessi handklæði hönnuð með útiveruna í huga og liturinn dofnar því ekki eins fljótt og á venjulegum handklæðum.
Hárhandklæði
Hárhandklæði eru yfirleitt þekkt fyrir góða rakadrægni. Þau eru því tilvalin utan um hausinn svo að hárið þorni hraðar. Flest hárhandklæði eru gerð úr bómull eða hör.
Hvaða stærð af handklæði hentar best?
Kaup á handklæði verða mun auðveldari þegar þú áttar þig á því hvaða efni þú vilt, en þú gætir þó lent í vandræðum þegar þú þarft að velja stærðina á handklæðinu. Áður en þú stekkur fram á bað til að mæla öll handklæðin þín, skoðum þá aðeins betur staðlaðar stærðir af handklæðum sem gætu hentað þér.
Hefðbundið baðhandklæði er yfirleitt um 69 x 132 cm. Hafðu í huga að málin geta verið mismunandi eftir vörkumerkjum og framleiðendum. Þurrkhandklæði eru yfirleitt um 38 x 64 cm til 46 x 76 cm. Þau eru oftast nógu stór til að geta líka verið notuð sem hárhandklæði.
Minnstu handklæðin eru þvottapokarnir góðu, en þeir eru yfirleitt ferkantaðir og um 33 x 33 cm á stærð. Þvottapokar fyrir börn eru í sömu stærð og venjulegir þvottapokar en eru þó þykkari og með betri rakadrægni. Baðlök eru stærri en venjuleg handklæði eða um 90 x 178cm. Þau eru tilvalin fyrir hávaxið fólk. Þau geta þó tekið þónokkuð mikið pláss út af stærðinni og svo eru þau lengur að þorna.
Strandhandklæði eru hins vegar þynnri og yfirleitt um 76 x 152 cm. Þau eru einnig breiðari en baðhandklæði og fást oft með allskyns mynstrum.
Hvað er GSM og af hverju skiptir það máli við valið?
Nú veistu án efa að sum handklæði eru þynnri en önnur. Þegar við tölum um að handklæði sé þunnt eða þykkt, þá erum við í rauninni að tala um þyngd handklæðisins. Þú hefur líklegast tekið eftir stöfunum „GSM“ á handklæðunum þínum. Þessi skammstöfun stendur fyrir „grams per square meter“, eða „grömm á fermetra“ á okkar ástkæra ylhýra, og hún vísar í þyngd efnisins.
GSM er notað til að mæla þykkt handklæða. Þykk og úfin handklæði eru með hærri GSM tölu. Hefðbundin GSM tala í handklæðum er 300 - 900. Handklæði geta tilheyrt þremur flokkum, allt eftir GSM tölunni.
-
Þunn og létt handklæði á borð við strandhandklæði, viskustykki og ferðahandklæði eru í lægri kantinum (300 - 400).
-
Miðlungsþung handklæði eru með GSM tölu á milli 400 og 600. Þetta er hefðbundin þyngd fyrir handklæði sem þú notar daglega á borð við baðhandklæði, þurrkhandklæði og þvottapoka.
-
Þung og mjög úfin handklæði eru yfirleitt á bilinu 700 - 900. Þessi tegund handklæða er mjög rakadræg og tekur lengri tíma að þorna.
Hafðu í huga að GSM er aðeins kvarði fyrir þyngd handklæðisins, ekki gæðin.
Hvernig þú þværð og þurrkar handklæðin þín almennilega
Reglulegur þvottur á handklæðunum heldur þeim snyrtilegum og lengir endingartímann.
Þvottur
Auðvelt er að þvo bómullarhandklæði í þvottavél. Notaðu mildan þvottalög og kalt vatn og settu handklæðin í þurrkarann á lágu hitastigi. Það er líka mikilvægt að aðskilja handklæðin eftir lit. Handklæði draga auðveldlega í sig liti frá öðrum hlutum við þvott.
Þú þarft því að passa þig á því að þvo hvít handklæði með öðrum hvítum handklæðum til að koma í veg fyrir að þau taki á sig annan lit. Ef þú átt handklæði í sterkari litum, þvoðu þau þá saman. Best er þó að setja ekki of mörg handklæði í þvottavélina í einu þar sem þau taka þá lengri tíma að þorna. Þú getur einnig þvegið önnur efni í þvottavél á borð við hör og gerviefni.
Þurrkun
Þegar kemur að þurrkun þá er best að finna gott jafnvægi. Handklæði þurfa að vera algjörlega þurr áður en þú gengur frá þeim til að koma í veg fyrir myglu. Þó máttu ekki ofþurrka þau heldur, þar sem það gæti eyðilagt trefjarnar. Notaðu lægstu stillinguna á þurrkaranum og ekki hafa hitastigið of hátt þar sem þetta getur fengið trefjarnar til að dragast saman um of. Ekki er mælt með að efni eins og pólýester eða míkrófíber séu sett í þurrkara. Þau munu mjög líklega stífna og missa rakadrægnina. Besta leiðin til að þurrka þessi efni er að leyfa þeim að þorna á þurrkgrind eða utandyra.
Verslaðu handklæði hjá vidaXL
Hér hjá vidaXL bjóðum við upp á mikið úrval af fyrsta flokks handklæðum í allskyns efnum, stærðum og litum. Hvort sem þú ert í leit að þvottapokum eða stórum baðhandklæðum þá finnurðu réttu vöruna hjá okkur. Öll handklæðin okkar eru frá vörumerkjum í fremsta flokki og þú getur því treyst því að þú fáir aðeins hágæðahandklæði hjá okkur sem endast í áraraðir. Skoðaðu úrvalið okkar til að finna réttu handklæðin fyrir heimilið þitt.