Útbúðu ómótstæðilegan leskrók

Innanhússhönnun · 22. Júlí 2022


 

Að eiga góðan leskrók er ekki bara kósí heldur líka gagnlegt. Við lifum öll annasömu lífi og notum litlu mómentin til að endurnæra okkur. Það er einmitt það sem leskrókurinn getur verið – friðsæll staður heima fyrir þar sem hægt er að endurhlaða batteríin.

Besta lestrarhornið ætti að tikka í nokkra mikilvæga reiti. Það þarf að vera þægilegt, friðsælt og hljóðlátt og líta vel út. Lestrarhorn heimilisins ætti líka að vera notalegt og hvetja þig til að slökkva á hausnum og kafa ofan í góða bók.

Áður en þú ferð af stað í að útbúa hinn fullkomna leskrók eru nokkur atriði sem er ágætt að skoða. Við tókum saman allt sem vert er að vita; hér eru góðar hugmyndir fyrir leskrókinn ásamt stílráðum, fallegum húsgögnum og fylgihlutum fyrir lestrarhornið þitt.


Hvað er í hinum fullkomna leskrók?


Það er nauðsynlegt að skapa sérstaka stemningu í leskróknum. Uppröðun bókanna þinna ætti að tóna við tilgang rýmisins og rýmið ætti að hvetja til slökunar í hverju einasta smáatriði.

Það fyrsta sem þarf að huga að er lýsing sem hentar fyrir notalegan leskrók. Að sjálfsögðu er náttúruleg birta mikilvæg en það er ekki hægt að treysta á hana eingöngu. Lýsingin í leskróknum setur tóninn fyrir rýmið. Þarna ætlarðu að njóta uppáhaldsbókanna þinna, tímarita og sjónvarps svo það er eins gott að lýsingin nái utanum allt.

Skapaðu lýsingu sem er þægileg fyrir augað. Settu upp ljós í hlýjum tónum á nokkrum stöðum í rýminu, til að gefa kósí andrúmsloft. Einn lampi á skrifborðið eða hliðarborð og auðvitað gólflampi – þannig þarf lýsingin að vera fyrir bókalestur.

Önnur leið til að hanna ómótstæðilega notalegan leskrók er að nota skapandi smáatriði sem tjá persónuleika þinn. Allt frá fylgihlutum fyrir hægindastól eða lestrarbekk, t.d. þægilegum púðum og sessum, til áhugaverðra listaverka og skrautmuna.

 

 

 

Hvernig skipulegg ég leshornið?


Til að geta slakað á í lestrarhorninu þarf að skipuleggja það vel. Hugsaðu um notagildi leshornsins þíns - það þarf að vera þægilegt og hagnýtt. Hvort tveggja er mikilvægt þegar ætlunin er að verja ánægjulegum tíma í leskróknum.

Fyrsta verk er að velja réttan stól fyrir lesturinn. Stóllinn þarf að vera rúmgóður og nógu þægilegur til að hægt sé að slaka vel á en samtímis þarf hann að passa inn í rýmið. Lestrarbekkur er annar skemmtilegur valkostur, sérstaklega þegar honum er komið fyrir undir glugga. Ekki gleyma góðum fótskemli, hvort sem þú velur stól eða bekk.

Hugsaðu nú um notagildi leskróksins. Ef krókurinn á einnig að nýtast sem aðstaða fyrir vinnu eða áhugamál, þarf að koma fyrir skrifborði. Nýttu þér smart skipulagshluti á skrifborðið sem passa við heildarsvip leskróksins. Þannig hefurðu allt innan seilingar og getur nýtt rýmið sem heimaskrifstofu.

Bókunum er hægt að koma fyrir í bókaskápum eða á fljótandi vegghillum. Til að brjóta upp bókastaflana í hillunum er gott að lífga upp á þá með pottaplöntum, myndarömmum og bókastoðum. Með bókasafnið þitt og leskrókinn í sama rýminu skaparðu notalegt og afslappandi andrúmsloft.

 

 

Veldu rétta stílinn fyrir leskrókinn þinn - sjáðu heimabókasafn í iðnaðarstíl


Eitt af því besta við það að innrétta lestrarhorn er frelsið til að stílisera það. Það er hægt að útbúa fallegt lestrarhorn hvar sem er á heimilinu – í svefnherberginu, stofunni eða barnaherberginu og jafnvel er hægt að koma leskrók fyrir undir stiganum.

Húsgögn og fylgihlutir í leskrókinn geta verið í hvaða stíl sem er. Einn af vinsælli kostunum er heimabókasafn í iðnaðarstíl. Fyrir þetta lúkk, skaltu einblína á húsgögn og skrautmuni sem passa við iðnaðarstílinn. Byrjaðu á því að skoða hillur í iðnaðarstíl – málmhillur í svörtu, gráu og hvítu sem eru traustar og smart. Skreyttu skrifborðið með heillandi borðlampa sem sameinar hlýlegan við og grófan málm. Prófaðu þig áfram með auka- og fylgihlutum sem undirstrika hinn grófa svalleika sem einkennir iðnaðarútlitið.

 

 

. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . .