Grundvallaratriði í litavali fyrir heimilið

Innanhússhönnun · 13. Júlí 2022

Litir geta haft mikil áhrif í rýminu, bæði sjónræn og óáþreifanleg. Þrátt fyrir það virðast flest okkar vera eitthvað smeyk við að nota sterka liti í innanhússhönnun. Við ætlum að reyna að breyta því með þessari grein, sem sýnir á auðveldan hátt hvernig er hægt að nota liti og litatóna í innanhússhönnun.

Við kunnum öll trikkin þegar kemur að aukahlutum í litum, frá litasamsetningu innréttinga til þess hvernig litahjólið nýtist í innanhússhönnun. Það eru ákveðnar línur í litaheiminum sem vert er að þekkja og fara eftir en litir eru fyrst og fremst til þess að leika sér með þá. Byrjum á grundvallaratriðum í notkun lita til að skapa heildrænt en þó lifandi rými sem endurspeglar persónuleika íbúa.

 

diddyeltouny (Instagram)

 

_instarior (Instagram)



Litareglur í innanhússhönnun: þarf að hafa ákveðið litaskema fyrir allt heimilið?


Svarið við þessari spurningu getur verið já eða nei, allt eftir því hvernig þú sérð heimilið fyrir þér. Sama þótt það séu reglur og venjur varðandi hitt og þetta í innanhússhönnun er alltaf mikilvægast að nota sína eigin sköpunargáfu og stíl. Við skulum fara yfir þrjú mikilvægustu atriðin til að hafa í huga við litaval heimilisins.


Complementary scheme

1. Fyllingarlitir


Fyllingarlitaskema samanstendur af tveimur litatónum sem eru andspænis hvorum öðrum á litahjólinu. Augljósustu litasamsetningarnar eru þrjár: rauður og grænn, gulur og fjólublár eða appelsínugulur og blár. Fyllingarlitirnir eru til áherslu í rýminu og fara best þegar jafnvægi er milli hlutlausra lita og fyllingarlitanna.


 

inma_deconordic (Instagram)


2. 60-30-10 litareglan


Þessi regla segir okkur að ráðandi litur ætti að þekja 60% af rýminu, aukalitur 30% og áherslulitur 10%. En nóg um stærðfræði, skoðum þetta á mannamáli!

  • 60% er heildarlitur rýmisins - bakgrunnurinn. Þetta er liturinn sem fer á veggina og/eða stóru húsgögnin og húsbúnaðinn; sófa, mottur, hillusamstæður og þess háttar.

  • 30% er aukaliturinn, sem eykur dýpt en undirstrikar heildarlitinn. Aukaliturinn fer vel í minni húsgögnum og fylgihlutum og tilvalið að velja staka stóla, hliðarborð og gluggatjöld í þessum lit.

  • Síðustu 10% eru áhersluliturinn. Þetta er skemmtilegi liturinn sem brýtur upp rýmið og gerir það meira spennandi. Þetta er liturinn fyrir aukahluti á borð við púða, teppi og skrautmuni. Með þessari aðferð verður einnig einfaldara að skipta um stíl með því að skipta út aukahlutunum í áherslulitnum.


 

raumhoch2 (Instagram)

 

zen_colors_home (Instagram)


3. Samblanda af köldum og hlýjum tónum


Hlýir litir eru meðal annars rauður, appelsínugulur, gulur og margir hlutlausir tónar því þeir draga upp í hugann myndir af hita og birtu. Hlýir tónar njóta sín vel í stofu eða opnu rými.

Blár, grænn, grár og fjólublár eru hins vegar kaldir litir sem eru látlausari og bjóða ró inn í rýmið. Kaldir tóna henta afar vel í litahönnun svefnherbergis eða á baðherbergi.

 

linterieuradvies (Instagram)


Hvernig er hægt að nota litakerfin til þess að innrétta heimilið?


Nokkrar mikilvægustu reglurnar varðandi litanotkun hafa þegar komið fram hér að ofan. Hins vegar teljum við að það sé (stundum) í fínu lagi að brjóta reglur en þá erum við aðallega að tala um litasamræmi í innanhússhönnun, ekki aðrar reglur! Þegar kemur að því að velja saman liti í innanhússhönnun er hægt að fara nokkrar leiðir.

  • Það er hægt að velja litaþema fyrir allt heimilið og hafa flest eða öll rýmin innan sömu litatónafjölskyldu. Til dæmis henta svalir tónar vel fyrir friðsælt svefnherbergi og lestrarkrók en hlýrri tónar virka betur í líflegu eldhúsi, í stofunni eða sjónvarpsherbergi. Samkvæmt litasálfræði hafa kaldir litatónar róandi áhrif á okkur og hjálpa okkur að slaka á og hvílast. Hlýir litir hafa hins vegar orkugefandi áhrif og ýta undir bjartsýni og lífsgleði.

  • Hlutlausir tónar geta líka verið frábærir fyrir heimilið. Þegar kemur að innanhússstíl og litavali hefur svartur litur nokkra sérstöðu. Sem heildarlitur er hann yfirgnæfandi en sem áherslulitur getur hann undirstrikað vel lykilatriði í hönnuninni. Hvítur ber aftur á móti með sér ferskan og léttari svip og hentar vel fyrir heimili í módernískum stíl. Grár og drapplitaður má segja að séu autt blað þegar kemur að litaskemanu en það er auðvelt að tóna þá upp eða niður með hlýjum eða köldum tónum.

  • Pantone litur ársins 2022, hin fallegi Very Peri, kemur dásamlega vel út í nútímalegu rými. Very Peri er djarfur og frumlegur blár litur með fjólubláum undirtónum sem eru afar róandi og gefa rýminu dýpt. Ef heill áhersluveggur í Very Peri er of mikið fyrir þig er einnig hægt að koma honum fyrir í smærri skömmtum í gegnum aukahluti og einstaka skrautmuni.

 

kleurhumeur (Instagram)


♥ Ábending fagfólks: Það er einfalt að nota bækur, persónulega hluti og fjölskyldumyndir til að lífga upp á rýmið og gefa því lit. Plöntur og fersk blóm eru einnig tilvalin, við tölum nú ekki um ef plönturnar blómstra í litaskemanu þínu!